Samþykktir fyrir Kaupfélag Suðurnesja

I. KAFLI. - Nafn og tilgangur félagsins.

1. grein.
Félagið heitir Kaupfélag Suðurnesja og er nafnið skammstafað KSK. Félagið starfar í samræmi við lög um samvinnufélög nr. 22/1991- með áorðnum breytingum. Heimili þess og varnarþing er í Reykjanesbæ. Félagssvæði þess eru Suðurnes þ.e. Reykjanesbær, Suðurnesjabær, Grindavíkurbær og Sveitarfélagið Vogar. Félaginu er heimilt að eiga aðild að atvinnustarfsemi utan félagssvæðisins.

2. grein.
Tilgangur félagsins er að vinna að hagsmunum félagsmanna og efla búsetu, atvinnu og mannlíf á félagssvæðinu. Þeim tilgangi sinnir félagið einkum með eftirfarandi hætti:

 1. Að ávaxta eignir KSK og ráðstafa arði af þeim
 2. Með virku eignarhaldi og stjórnun á fyrirtækjum og félögum, ýmist eitt sér eða í samvinnu við aðra, þ.m.t. í verslunar- og fasteignarekstri.
 3. Að leita samninga um viðskiptakjör fyrir félagsmenn
 4. Að auka þekkingu fólks á samvinnufélögum og samvinnustarfi

II. KAFLI Aðild, réttindi og skyldur félagsmanna

3. grein

Félagsmaður getur hver sá orðið sem búsettur er á félagssvæðinu og hefur náð 18 ára aldri. Til þess að öðlast kjörgengi og atkvæðisrétt á deilda-, fulltrúa- eða aðalfundum félagsins verður félagsmaðurinn að hafa verið skráður í félagið í a.m.k. tvo mánuði.

Félagsstjórn hefur vald til að synja mönnum um upptöku í félagið eða vísa manni úr félaginu, ef þeir hafa unnið félaginu álitshnekk eða umtalsverðan skaða. Umsækjandi getur þá borið mál sitt undir fulltrúafund/aðalfund.

Félagsstjórn er heimilt, en þó ekki skylt, að samþykkja umsókn einstaklinga sem búsettir eru utan félagssvæðisins, sérstaklega ef hann hefur sérstök tengsl við félagið vegna starfa sinna fyrir það, eða dótturfélög og hlutdeildarfélög, sem launþegi eða stjórnarmaður. Jafnframt er heimilt að samþykkja umsóknir einstaklinga sem gegna störfum hjá sérstökum samstarfsaðilum KSK, svo og félögum sem KSK á eignarhlut í.

4. grein

Við inngöngu staðfestir félagsmaður að hann muni virða samþykktir félagsins eins og þær eru eða verða á hverjum tíma. Jafnframt skal hann greiða hóflegt inntökugjald sem rennur í stofnsjóð.  Inntökugjald skal ákveðið af aðalfundi í samræmi við ákvæði laga um samvinnufélög eftir tillögu stjórnar félagsins.

5. grein

Félagsmenn bera ekki persónulega ábyrgð á skuldbindingum félagsins umfram það sem nemur stofnsjóðseign hvers um sig.

6. grein

Félagaskrá skal varðveitt á skrifstofu félagsins og skal hún uppfærð reglulega með samanburði við þjóðskrá þannig að tryggt sé að félagsmenn séu skráðir í rétta deild félagsins. Heimilt er að færa skrána með rafrænum hætti. Nöfnum og heimilisföngum nýrra félaga skal bætt við félagaskrána um leið og þeir gerast félagar og skulu þeir skráðir í þá deild sem þeir eiga að tilheyra. Um vörslu félagaskrár skal farið að gildandi lögum og almennum reglum um persónuvernd. Heimilt er að gefa út sérstök félagsskírteini til félagsmanna til staðfestingar á félagsaðild þeirra. Félagsskírteinin geta verið rafræn.

7. grein

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og sendast skrifstofu félagsins. Greiðist þá út stofnsjóðseign viðkomandi félagsmanns samkvæmt samþykktum þessum og í samræmi við ákvæði gildandi laga. Gangi félagsmaður úr félaginu á hann ekki tilkall til annarra eigna félagsins en þeirra sem skráðar eru á nafn hans og varðveitast í stofnsjóði.

8. grein

Þeir félagsmenn sem flutt hafa burt af félagssvæðinu geta áfram verið skráðir félagsmenn í KSK, ef þeir óska þess, en skulu ekki vera skráðir félagar einstakra deilda. Þeir geta jafnframt áfram notið viðskiptakjara og annarra hagsmuna sem félagið býður félagsmönnum sínum upp á.

9. grein

Félagsréttindi falla niður við andlát, enda verða þau ekki öðrum seld eða af hendi látin, né heldur kröfur á félagið, er af þeim eru sprottnar.

10. grein

Sérhver félagsmaður hefur eitt atkvæði og er kjörgengur í trúnaðarstöður samkvæmt því, sem lög þessi ákveða.

Heimilt er félagsmanni að láta umboðsmann sækja félagsfundi fyrir sína hönd, en umboðsmaður getur þó ekki farið með nema atkvæði eins félaga auk atkvæðis þess er hann sjálfur hefur.

III. KAFLI - Sjóðir og veltufé

11. grein

Í stofnsjóð félagsins skal leggja aðildargjald félagsmanna, sbr. 4. grein. Stjórn félagsins skal árlega taka ákvörðun um vaxtareikning og verðbætur á stofnsjóðshluti félagsmanna. Að jafnaði skal hafa til viðmiðunar almenna sparisjóðsvexti og verðbætur í samræmi við almennar verðbreytingar í þjóðfélaginu, og bætast vextir og verðbætur við höfuðstól. Stofnsjóð skal nota við allan rekstur félagsins. Stofnsjóðseign hvers félagsmanns getur komið til útborgunar þegar uppfyllt eru ákvæði 14. gr.

12. grein

Minnst tíu hundraðshluta þess hagnaðar, sem ekki fer til þess að jafna hugsanlegt tap fyrri ára og ekki er lagður í aðra lögbundna sjóði, skal leggja í varasjóð félagsins uns varasjóðurinn nemur 10 hundraðshlutum af fjárhæð stofnsjóðs. Þegar því marki hefur verið náð, skulu framlög vera minnst fimm hundraðshlutar þar til sjóðurinn nemur einum fjórða hluta af fjárhæð stofnsjóðs. Heimilt er að nota varasjóð til að jafna tap, sem ekki er unnt að jafna með öðrum hætti.

13. grein

Eigi má greiða fé úr óskiptum sjóðum félagsins nema eftir tillögu félagsstjórnar, í samráði við endurskoðendur og með samþykki aðalfundar, enda séu tillögunni fylgjandi ekki færri en 2/3 hlutar fulltrúa á aðalfundi. Áður skal tillagan borin undir aðalfundi deilda og þarf hún að hljóta samþykki 2/3 hluta fulltrúa á aðalfundi hverrar deildar.

14. grein

Innstæðu í stofnsjóði má greiða út

 1. Við andlát félagsmanns
 2. Við gjaldþrot félagsmanns til skiptastjóra þrotabús
 3. Þegar félagsmaður uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir aðild að félaginu.

Heimilt er að óska útborgunar á innstæðu í stofnsjóði

 1. Þegar 70 ára aldri er náð, enda þótt félagsmaður haldi áfram þátttöku í félaginu.
 2. Ef félagsaðili er metinn með fulla og varanlega örorku skv. reglum TR, enda þótt félagsmaður haldi áfram þátttöku í félaginu.
 3. Ef félagsmaður flytur af félagssvæðinu, enda gangi hann þá úr félaginu

IV. KAFLI. - Skipulag félagsins

15. grein

Stjórnun félagsins er í höndum:

1. Aðalfundar og annarra fulltrúafunda.

2. Félagsstjórnar

3. Framkvæmdastjóra

Stjórn félagsins skal skipuð 5 mönnum, sem kosnir eru á aðalfundi, þá skal einnig kjósa þrjá varamenn. Kjósa skal að hámarki 2 aðalmenn og 1 varamann á hverjum aðalfundi. Kjörtími er þrjú ár í senn. Engan má kjósa í stjórn nema að hann sé félagsmaður. Gæta skal þess við stjórnarkjör að jafnræði sé á milli kynja eins og kostur er miðað við fjölda stjórnarmanna.

Stjórnin kýs formann, varaformann og ritara úr sínum hópi til eins árs í senn.  Formaður kveður til fundar og stjórnar þeim.  Stjórnafundur er lögmætur, ef meira en helmingur stjórnarmanna er á fundi. Úrslitum mála ræður afl atkvæða. Allar fundargerðir stjórnarinnar skulu ritaðar í gerðabók og skrifa viðstaddir stjórnarmenn undir þær. Fundargerðir mega vera rafrænar og samþykktar rafrænt.

16. grein.

Félagsstjórn skiptir félagsmönnum í deildir. Deildir félagsins eru:

 1. deild; Keflavík, norðan Aðalgötu
 2. deild; Keflavík, sunnan Aðalgötu
 3. deild; Njarðvík, Hafnir, Vogar
 4. deild; Grindavík
 5. deild; Sandgerði
 6. deild; Garður

8.   deild; Hafnarfjörður, Kópavogur, Reykjavík, Seltjarnarnes, Garðabær

Hlutverk félagsdeilda er að vera vettvangur félagsmanna til fulltrúakjörs og miðlunar upplýsinga. Félagsstjórn skal veita félagsmönnum greinargóðar upplýsingar um starfsemi félagsins sem auðveldað geta félagsmönnum að hafa virk áhrif á skipulag, stefnu og starfshætti þess.

Deildirnar skulu halda aðalfund fyrir lok aprílmánaðar ár hvert.

Aukafundir í deildum skulu haldnir þegar deildarstjórn og framkvæmdastjóri telja nauðsynlegt, eða ef félagsstjórn, skoðunarmenn eða minnst 10% deildarmanna óska þess skriflega og tilgreina ástæður.  Fundarboð til deildafunda skulu auglýst í blöðum, útvarpi eða á annan hátt.

Vanræki deildarstjórn að kalla saman fund, skal formaður félagsstjórnar boða til hans.

Heimilt er að hafa fundi sameiginlega fyrir tvær eða fleiri deildir, ef félagsstjórn telur það henta.

Dagskrá aðalfunda deildanna skal vera sem hér segir:

 1. Kosinn fundarstjóri og fundarritari.
 2. Skýrsla félagsstjórnar og framkvæmdastjóra.
 3. Tillögur til breytinga á samþykktum sem leggja á fyrir næsta aðalfund félagsins.
 4. Kosnir fulltrúar og varafulltrúar á aðalfund.
 5. Kosin stjórn og varastjórn fyrir deildina.
 6. Önnur mál.

Félagsstjórn og framkvæmdastjóri  hafa leyfi til þess að sitja deildafundi og taka þátt í umræðum, þótt ekki eigi þeir heima á deildarsvæðinu, en hafa þá ekki atkvæðisrétt. Gjörðir deildafunda skal rita í gjörðabók.  Hún skal geymd á aðalskrifstofu félagsins milli funda. Fundargerðir deilda mega vera rafrænar.

Þeir sem eru félagsmenn 21. mars 2024 og tilheyra 8. deild félagsins; Hafnarfjörður, Kópavogur, Reykjavík, Seltjarnarnes og Garðabær skulu áfram halda öllum réttindum í félaginu þar til þeir segja sig úr því eða andast. Skal deildin starfrækt áfram þar til stjórn félagsins ákveður annað. Frá 21. mars 2024 bætast ekki við nýir félagsmenn í deildina.

17. grein.

Deildarstjórn skal skipuð þremur deildarfélögum og einum til vara.

Deildarstjórn kýs sér sjálf formann og ritara.

18. grein.

Um kjör á fulltrúafundi.

Fulltrúar á fulltrúafundi skulu vera 60  kosnir af deildum í hlutfalli við fjölda félagsmanna í hverri deild.  Þó skal einstök deild aldrei eiga fleiri fulltrúa en 15.  Félagsstjórn sker úr um fulltrúafjölda deildanna í samræmi við félagatal í upphafi árs.  Deildarstjórn skal árlega gera tillögu um val fulltrúa og varafulltrúa, sem kjósa á fyrir deildina.

Á tillögulistanum skal vera tvöföld tala aðalfulltrúa deildarinnar, en auk þess fimm línur þar sem bæta má við nöfnum fullgildra félagsmanna að ósk fundarins.  Ef óskir berast um fleiri nöfn, skal aðeins skrá þá fimm á listann sem mest fylgi hafa á fundinum.  Setja skal x framan við nöfn þeirra sem kosnir eru.

Þegar kjöri aðalfulltrúa er lokið, taka þeir deildarmenn sem atkvæði fengu sæti varafulltrúa í þeirri röð sem atkvæði féllu á þá sem aðalfulltrúa.

V. KAFLI. - Fulltrúafundir

19. grein.

Fulltrúafundur félagsins hefur æðsta vald í öllum málum þess, með þeim takmörkunum sem lögin ákveða.   Aðalfundur skal haldinn einu sinni á ári þegar deildafundum er lokið að jafnaði eigi síðar en 30. apríl ár hvert.  Á fulltrúafundum eiga sæti kjörnir fulltrúar félagsdeildanna og taka þeir ákvarðanir í umboði allra félagsmanna.

Fulltrúafund skal boða hverjum þeim er rétt á til að sækja hann, eigi síðar en með viku fyrirvara með bréfi, tölvupósti eða á annan sannanlegan hátt.  Fulltrúafundur er lögmætur ef rétt er til hans boðað og meirihluti atkvæðisbærra fulltrúa mætir.  Úrslitum mála ræður afl atkvæða nema þar sem lög og samþykktir þessar ákveða annað.  Félagsstjórn og framkvæmdastjóri  skulu sitja fundinn.  Þeir hafa málfrelsi og tillögurétt, en ekki atkvæðisrétt nema þeir hafi verið kosnir fulltrúar.

Lagabreytingar má aðeins gera á fundinum, hafi þær áður verið kynntar á deildafundum í öllum deildum.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

 1. Kosinn fundarstjóri og fundarritari.
 2. Kannað lögmæti fundarins
 3. Skýrslur félagsstjórnar og framkvæmdastjóra
 4. Afgreiðsla ársreiknings
 5. Tillaga félagsstjórnar um ráðstöfun hagnaðar eða taps
 6. Tekin fyrir mál, er lögð kunna að verða fyrir af félagsstjórn og framkvæmdastjóra.
 7. Tillögur um breytingar á samþykktum, sem fram hafa komið.
 8. Ákveðin laun  félagsstjórnar.
 9. Kosin félagsstjórn.
 10. Kosnir varamenn í félagsstjórn.
 11. Kosinn löggiltur endurskoðandi eða endurskoðunarfélag.
 12. Kosning fulltrúa og varafulltrúa á aðalfund Sambands íslenskra samvinnufélaga (SÍS).
 13. Önnur mál, sem upp kunna að verða borin.

20. grein.

Fulltrúafundi skal halda eftir ákvörðun félagsstjórnar.  Enn fremur skal halda fulltrúafund, ef einn tíundi hluti atkvæðisbærra fulltrúa eða fleiri en ein deildarstjórn krefst þess skriflega og greinir fundarefni.

Ef stjórn kallar ekki saman fund, þegar þess er réttilega krafist,  geta hlutaðeigendur sjálfir gert það.

Um boðun og fundarsköp gildir sama um fulltrúafundi og aðalfundi.

Á fulltrúafundum og deildarfundum skal kjósa fundarstjóra og ritara með opinberum kosningum.  Aðrar kosningar skulu vera skriflegar ef þess er krafist.

Heimil er notkun rafrænna skjalasamskipta og tölvupósts í samskiptum milli félagsins og félagsmanna, þar með talið fulltrúa, í stað þess að senda eða leggja fram skjöl rituð á pappír. Nær heimildin til hvers kyns samskipta milli félagsins og félagsmanna og annarra tilkynninga sem félagsstjórn ákveður að senda skuli til félagsmanna. Eru slík rafræn samskipti jafngild samskiptum á pappír.

Félagsmaður er sjálfur ábyrgur fyrir því að tilkynna félaginu um netfang sem hann óskar eftir að fá rafræn skeyti og tölvupósta senda til og breytingar á því.

Stjórn félagsins er heimilt að ákveða að félagsmaður geti tekið þátt í fundarstörfum félagsfunda með rafrænum hætti án þess að vera á fundarstað. Ákveði stjórnin að nýta þessa heimild skal þess sérstaklega getið í fundarboði. Þar sem jafnframt skal tilgreint hvernig félagsmenn geta borið sig að við fundarsókn.

Heimilt er að halda félagsfundi, þar með talið aðalfundi, aðeins rafrænt, ef aðstæður eru sérstakar, en aðalreglan skal samt vera félagsfundir með hefðbundnum hætti. Skal tryggt að félagsmaður geti tekið þátt í fundarstörfum og atkvæðagreiðslu. Í fundarboði skal taka fram hvernig félagsmaður tilkynni þátttöku sína í fundinum og aðrar nauðsynlegar upplýsingar vegna þátttökunnar.

Heimildir til rafrænna samskipta og funda samkvæmt þessari grein gildir einnig fyrir deildarfundi.

VI. KAFLI. - Störf stjórnar og framkvæmdastjórnar

21. grein.

Stjórnin undirbýr fundarefni, framkvæmir fundarályktanir og annast störf milli fulltrúafunda, leggur fyrir aðalfund til úrskurðar endurskoðaða reikninga félagsins fyrir næsta ár á undan, hefur eftirlit með eignum félagsins, gætir hagsmuna þess og skal leita aðstoðar dómstóla í málefnum félagsins, ef þörf krefur.

Allir samningar sem stjórnin eða framkvæmdastjóri gerir fyrir hönd félagsins, samkvæmt lögum þessum eða ályktunum félagsfunda, eru bindandi fyrir félagsheildina og hvern einstakan félagsmann.  Firma félagsins rita þrír stjórnarmenn saman.

22. grein.

Félagsstjórn ræður framkvæmdastjóra félagsins. Ef framkvæmdastjóri er ekki ráðinn getur stjórnin falið formanni stjórnar að annast sérstök verkefni í þágu félagsins.

Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur félagsins og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og ákvörðunum sem stjórnin hefur samþykkt. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar.

Framkvæmdastjóri skal gera grein fyrir starfsemi sinni á aðalfundi ár hvert og hvenær sem stjórnin óskar þess. Stjórnin veitir framkvæmdastjóra prókúru umboð og öðrum ef með þarf.

VII. KAFLI - Ársreikningar og endurskoðun.

23. grein.

Reikningsár félagsins er almanaksárið.
Á aðalfundi skal kjósa endurskoðunarfélag eða löggiltan endurskoðanda fyrir félagið.
Endurskoðandi skal rannsaka reikninga félagsins fyrir hvert starfsár og leggja niðurstöður sínar fyrir aðalfund.
Endurskoðendur má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna eða starfsmanna félagsins.

VIII. KAFLI. - Breytingar á samþykktum, slit o.fl.

24. grein.

Samþykktum þessum má breyta á lögmætum aðalfundi, með a.m.k. 2/3 hluta atkvæða, en áður skulu breytingarnar hafa verið kynntar og ræddar á fundum í öllum deildum.

25. grein.

Tillögu um að slíta félaginu má bera upp á lögmætum fulltrúafundi og skal hún hljóta samþykki 2/3 hluta fulltrúa tvo fundi í röð, sem haldnir skulu að lágmarki með sex mánaða millibili, en hana ber auk þess að leggja fyrir til atkvæðagreiðslu félagsmanna á deildarfundum milli fulltrúafunda og skal hún hljóta samþykki meira en 2/3 hluta félagsmanna viðkomandi deildar á hverjum deildarfundi fyrir sig áður en til slita félagsins getur komið í samræmi við gildandi lög.

Nú eru slit félagsins samþykkt í samræmi við það sem að ofan segir.

Þegar allar skuldbindingar hafa verið inntar af hendi í samræmi við gildandi lög skulu eignir félagsins sem koma til skipta renna til sjálfseignarstofnunar sem ráðstafar arði af eignum sínum til menningar-, mennta-, líknar-, íþrótta og æskulýðsmála á félagssvæðinu. Um ráðstöfun fer nánar samkvæmt ákvörðun félagsfundar eða þess aðila sem falið er að ganga frá slitum félagsins.

Þannig samþykkt á aðalfundi 21. mars 2024.