Pöntunarfélag Verkalýðs- og Sjómannafélags Keflavíkur 1935-1937. Á fundi verkalýðsfélagsins 30. september 1935, haldinn í Ungmennafélagshúsinu Skildi við Kirkjuveg var samþykkt tillaga um að stofna pöntunarfélag í Keflavík. Fyrir fundinum lágu upplýsingar um vörupantanir að upphæð kr. 300 en víst þótti að þessar vörur væru um 80 krónum dýrari væru þær keyptar í verslunum hér.
Þegar Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis var stofnað var pöntunarfélag V.S.F.K. eitt af stofnfélögum, fljótlega var ákveðið að opna sölubúð í Keflavík. Um það bil 4 af hverjum 5 mönnum í Keflavík urðu félagsmenn í KRON.
Kaupfélag Suðurnesja er síðan stofnað 13. ágúst 1945
Saga KSK
Tímalína KSK
Fyrstu félögin sem stofnuð voru hér í því skyni að bæta kjör Íslendinga í viðskiptum hafa verið nefnd verðkröfufélög og munu hin elstu þeirra hafa verið stofnuð snemma á fimmta áratug 19. aldar (1840-1850).
Þessi félög voru yfirleitt frekar óformlegur félagsskapur nágranna sem tóku sig saman um að semja við kaupmenn um ákveðið verð fyrir innlegg sitt og freista þess að ná hagstæðari kaupum á innfluttum varningi en menn áttu kost á hver fyrir sig. Fæst verðkröfufélögin urðu langvinn og sum þeirra stóðu aðeins eina kauptíð eða svo. Þau stóðu ekki fyrir innflutningi og ráku ekki verslun á eigin vegum.
Um 1860 voru Suðurnesjabúar búnir að átta sig fyllilega á þeim möguleikum sem fólust á verðkröfufélögunum og er ljóst að um það leyti gegndu slík fé lög talsverðu hlutverki í verslunarmálum hér um slóðir, til hagsbóta fyrir almenning.
Eggert Gunnarsson, fyrrum alþingismaður stakk uppá því um 1880 að heppilegt væri að stofna verslunarfélag með vörupöntun, helst frá Englandi. Svo varð úr að fyrsta vörusendingin kom árið eftir, 1881, á tveimur skipum, Liv og Ann Warren. Það orð hafði lengi legið á dönsku selstöðukaupmönnunum að þeir hefðu meiri áhuga á að flytja inn þær vörur sem mest gáfu í aðra hönd heldur en þær sem landsmenn þurftu endilega á að halda. Þannig væri t.d. brennivínsframboðið hjá þeim meira en góðu hófi gegndi
Um eða skömmu eftir 1908 hafði Ólafur Ásbjarnarson, sem verið hafði kaupmaður í Keflavík um nokkura ára skeið, frumkvæði að fundarboðun til bænda í því augnamiði að stofnað yrði kaupfélag, eða einskonar bændaverslun Suðurnesja.
Það var svo á fundi verkalýðsfélagsins 30. september 1935, sem haldinn var í Ungmennafélagshúsinu Skildi við Kirkjuveginn í Keflavík kom Guðmundur Pétursson, með þá hugmynd, að stofna pöntunarfélag í Keflavík á svipuðum grunni og stofnuð höfðu þá verið í Reykjavík.
Hugmynd þessari var vel tekið og flutti Þorbergur P. Sigurjónsson tillögu þess efnis, að stofnað yrði Pöntunarfélag innan verkalýðsfélagsins.
Var tillagan samþykkt og kosin bráðabirgðastjórn.
Pöntunarfélag VSFK Keflavík var stofnað 19. nóvember 1935. Fyrsti pöntunarstjóri félagsins var Bjarni Sveinsson. Í stjórn voru Ragnar Guðleifsson, Þorbergur P. Sigurjónsson og Bjarni Sveinsson.
Þegar Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis var stofnað og pöntunarfélag V.S.F.K. var eitt af stofnfélögum þess, var ákveðið að opna fljótlega sölubúð í Keflavík.
Var þegar hafist handa um framkvæmdir og 9. nóvember það ár var opnuð sölubúð við Aðalgötu 10, í húsi Þórarins Ólafssonar, trésmiðs. Hús þetta hafði áður verið trésmíðaverkstæði Þórarins.
Miðað við verslanir hér á þeim tíma, var verslunarhús þetta sæmilegt hvað stærð snertir. Þar voru allar innréttingar, hillur og borð, af nýjustu gerð og hagkvæmar mjög á þeirra tíma mælikvarða.
Hið nýja verzlunarhús KRON í Keflavík
Tíðindamönnum blaða- og útvarps var boðið 1. þ. m. að skoða verzlunarhús kaupfélagsins, sem verið hefur í smíðum sl. ár en er nú fullgert. Mun það vera í röð fullkomnustu og beztu verzlunarhúsa landsins.
Húsið stendur á hornlóð Hafnargötu og Tjarnargötu, og er 320 fermetra að flatarmáli. Það er einlyft með kjallara undir nokkrum hluta og byggt í þrem álmum. Búðin sjálf er ca. 150 fermetrar og snýr að Tjarnargötu og Hafnargötu.
Öllum vörum búðarinnar er fyrirkomið með einkar hagfelldum hætti. Það vekur meðal annars athygli, að þær vörur sem mest eru keyptar, eru sameinaðar á aðgengilegustu stöðum búðarinnar. Búðarborðin eru öll færanleg og byggð með tilliti til þess, að hægt sé að skipa þeim á mismunandi vegu eftir því, sem kröfur tímans kunna að heimta.
Saga þessarar félagsdeildar, allt frá stofnun til þessa dags er með svipuðum hætti og saga KRON: Stöðug viðskiptaaukning, og sívaxandi félagsmannatala frá ári til árs. Á síðasta ári hefur viðskiptaaukning og félagsmannafjöldi þessarar deildar færst í aukana, langt fram yfir það, sem verið hefur á undanförnum árum. Hefur félagsmönnum fjölgað úr 143 í 231 á árinu 1942 og salan aukist úr kr. 200 þús. í kr. 382 þúsund.
(Faxi 4:1942)
Þann 13. ágúst 1945 gekk Keflavíkurdeildin úr KRON og var þá stofnað sjálfstætt kaupfélag, Kaupfélag Suðurnesja.
Á stofnfundi Kaupfélags Suðurnesja voru kosnir í stjórn þeir Guðni Magnússon, Ragnar Guðleifsson, Guðni Guðleifsson, Hallgrímur Th. Björnsson og Björn Hallgrímsson. Varamenn: Kristinn Jónsson og Valdimar Guðjónsson.
Fyrsti kaupfélagsstjórinn varð sá sem áður hafði verið deildastjóri hjá KRON, Björn Pétursson.
Árið 1946 er tekið á leigu verslunarhúsnæði að Hafnargötu 62 og þar opnuð verslun með nýlenduvörur og mjólkurvörur og einnig brauðbúð. Einnig var þetta ár opnuð verslun í húsi Ol. Olsen í Ytri-Njarðvík sem var rekin fram á árið 1950.
Árið 1947 sameinaðist Grindavíkurútibúið Kaupfélagi Suðurnesja en Sandgerðisdeild þess stofnaði nýtt félag, Kaupfélagið Ingólf er starfaði til ársins 1975.
Aðalfundur Kaupfélags Suðurnesja var haldinn nýlega. Vörusala félagsins var meiri síðastliðið ár en nokkru sinni fyrr, eða á sjöttu milljón króna. Hagnaður af viðskiptunum varð fullar sjöhundruð þúsundir króna. Hinsvegar varð tilkostnaður það mikill að ekki var hægt að úthluta arði að þessu sinni. Nú eru tvær deildir starfandi í félaginu hér í Keflavík, ein í Njarðvík og ein í Grindavík. Fulltrúar allra þessara fjögurra deilda sátu fundinn. (Faxi 6:1948)
Gunnar Sveinsson tók við kaupfélaginu árið 1949. Gunnar vann jafnt og þétt að því að bæta reksturinn og eftir tvö ár var rekstur kaupfélagsins kominn í nokkuð gott horf.
Árið 1950 er Njarðvíkurdeild KSK lögð niður og skiptist félagið eftir það í þrjár deildir, þ.e. tvær deildir í Keflavík-Njarðvík og ein í Grindavík. Rekstrarafgangur í fyrsta sinn hjá félaginu. Félagsmenn orðnir 867 talsins
Árið 1952 opnaði bakarí að Tjarnargötu 25 og var það rekið um tíu ára skeið. Bakarameistari var Albert Þorkelsson. Búð Vatnsness h.f. við Vatnsnesveg tekin á leigu og þar verslað með byggingarefni og veiðarfæri. Þá var fyrsta jólatrésskemmtunin kaupfélagsins haldin og verslunin í Grindavík stækkuð og endurbætt. Árið 1953 var svo opnuð sölubúð með mjólk að Hringbraut 93
Það var svo árið 1954 að verslunarhúsnæði var keypt í stórhýsinu að Faxabraut 27. Það ár var einnig fyrsta sumarnámskeiðið haldið fyrir félagskonur kaupfélagsins.
Þátttaka kaupfélagsins í atvinnuuppbyggingu á svæðinu hófst árið 1955, með því að kaupfélagið keypti hraðfrystihús sem var þekkt undir nafninu Stóra-milljón. Húsið var þá í fullum rekstri og var það rekið í rúma þrjá áratugi sem sjálfstætt fyrirtæki í tengslum við kaupfélagið. Gunnar Sveinsson var formaður stjórnar Hraðfrystihúss Keflavíkur h.f. meðan það var í eigu Kaupfélags Suðurnesja. Haustið 1955 setti Kaupfélagið upp frystihólf í hraðfrystihúsinu til afnota fyrir félagsmenn KSK en síðar lagðist þessi starfsemi niður og kom þar fyrst og fremst til brýn þörf hússins sjálfs fyrir geymslurými.
Boðið var uppá húsmæðraorlof fyrir félagskonur í kaupfélaginu. Gist var á samvinnuheimilinu Bifröst í Borgarfirði.
Árið 1956 var verslunin að Hringbraut 55 opnuð sem fyrsta kjörbúð á Suðurnesjum. Það ár voru einnig gerðar breytingar á versluninni á Hafnargötu 30 og hún einnig gerð að kjörbúð.
Það var svo þann 18. febrúar 1957 að kviknaði í fiskaðgerðarhúsi Hraðfrystihúss Keflavíkur h.f., og brann þar allt sem brunnið gat, þrátt fyrir aðgerðir slökkviliðs Keflavíkur og flugvallarins.
Hinn 11. desember 1957 flutti Kaupfélagið húsnæði að Faxabraut 27 með skrifstofur sínar. Þar voru skrifstofurnar í hartnær 10 ár.
1958, Tala félagsmanna er nú 995, en starfsmenn félagsins eru 45.
Þetta ár tekur Kaupfélag Suðurnesja alfarið við slátrun í Grindavík. Einnig er þetta ár fyrst farið að ræða um blaðaútgáfu félagsins og er skipuð fyrsta ritnefndin.
Kaupfélagið kaupir vörulager Verslunarfélags Grindavíkur sem þá hætti að versla. Félagsmenn eru nú 922 alls.
1961, Kaupfélagið Bjarmi í Njarðvík sameinast Kaupfélagi Suðurnesja þann 17. júlí og tók KSK við rekstri verslunarfélagsins við Grundarveg. Forsaga Bjarma er sú að árið 1957 var Pöntunarfélagið Njörður stofnað og var því síðan breytt í Kaupfélagið Bjarma. Byggði félagið myndarlegt verslunarhúsnæði og opnaði verslun þar sem síðar var Njarðvíkurútibú Sparisjóðsins í Keflavík.
Árið 1962 var mesta framleiðsluár Hraðfrystihúss Keflavíkur síðan það komst í eigu kaupfélagsins.
1964 er árið sem Samvinnubankinn hóf starfsemi sína, þann 12. maí á skrifstofu kaupfélagsstjóra að Faxabraut 27 og flutti síðan 1965 að Hafnargötu 62
1965 er Kjörbúð opnuð í Grindavík. Rekstri bakarís í Keflavík hætt og Stofnaður Menningarsjóður Kaupfélags Suðurnesja. Teppa- og búsáhaldabúð opnuð á Hafnargötu 57. Flytur síðan að Hafnargötu 62 árið 1967. Skrifstofa félagsins flytur í nýbyggingu að Hafnargötu 62.
Stórbruni varð í Hraðfrystihúsi Keflavíkur. Mikið tjón varð á eignum fyrirtækisins og rekstur stöðvaðist talsverðan tíma. Skemmdist húsið það mikið, að byggja þurfti það upp að nýju.
Járn og skip er opnað árið 1965 og það ár keypti félagið 340 ferm. fiskvinnsluhús þar og flutti þangað útgerðar og byggingarvörur úr hrörlegu leiguhúsnæði við Básveg.
1962 var lokið að fullgera betri aðstöðu fyrir kjötvinnsluna og Birgir Scheving verið ráðinn sem forstöðumaður. Kjötsel var farsæl kjötvinnsla í áratugi. 1966 er opnuð verslun að Faxabraut 27 og rekin þar til ársins 2003.
Skrifstofan flutti árið 1967 í nýtt húsnæði að Hafnargötu 62. Var það mikil bót. Þá var matvörubúð kaupfélagsins niðri þar sem veitingastaðurinn Langbest er nú. Í því húsnæði þar sem Glóðin er nú var sett upp verslun með búsáhöld, teppi og hreinlætistæki á efri hæðinni. Þar kom svo Samvinnubankinn fyrir neðan skrifstofurnar. Þótt Kaupfélag Suðurnesja velti rúmum 2 milljörðum eru aðeins um 6 1/2 stöðugildi á skrifstofunni að kaupfélagsstjóra meðtöldum. Kaupfélagið hefur 8 rekstrareiningar allt frá litlum eins og Faxabrautin og upp í stórar og flóknar einingar eins og Samkaup og Járn og Skip.
Birgðastöð SÍS (vöruhús) tekur til starfa þetta sama ár og Kaupfélag Suðurnesja tekur upp viðskipti við Birgðastöðina.
Árið 1970 eru afsláttarkort gefin út til félagsmanna í fyrsta sinn. Félagsmenn eru nú orðnir 1053 talsins. Hraðfrystihús Keflavíkur kaupir eignir Atlantors þetta sama ár.
Á því herrans ári var einnig fullbyggð 300 ferm. verslun félagsins að Víkurbraut 14 og 1974 bætist við 320 fm. vöruskemma. 1976 var svo hafin stækkun búðarinnar um 300 ferm. og lauk þeirri framkvæmd 1980.
Árið 1971 flytja Járn og Skip frá Vatnsnestorgi á Víkurbrautina. Þar fékk verslunin athafnasvæði upp á 8000 fermetra. Tekin er upp sú nýbreytni að kjósa fulltrúa starfsmanna í stjórn félagsins.
Árið 1974 var samþykkt að ganga í Landsamband íslenskra Samvinnustarfsmanna. Það sama ár kom skuttogarinn Aðalvík KE 95 kom til landsins. Hraðfrystihús Keflavíkur lét smíða þennan 500 lesta skuttogara í Bilbao á Spáni.
Árið 1975 er verslunin á Hringbraut 55 stækkuð verulega og fær nafnið Sparkaup.
Um þessar mundir hafði rekstur Kaupfélagsins Ingólfs í Sandgerði gengið fremur illa og hafði þess verið farið á leit að KSK yfirtæki reksturinn. Það var svo árið 1975 að kaupfélögin sameinuðust og var þá stofnuð 5. deild kaupfélagsins.
Félagið tekur við eignum og rekstri Kaupfélagi Ingólfs í Sandgerði. Það ár var einnig hafin stækkun búðarinnar á Víkurbrautinni um 300 ferm.
Félagið eignaðist svo nýtt „sumarhús á hjólum“ eins og það var kallað árið 1976. Þá var í fyrsta skipti skipaður blaðamaður fyrir samvinnublaðið Hlyn. Það var Magnús Gunnarsson sem hlaut þann titil.
Hinn 1. nóv. 1977 yfirtók Kaupfélag Suðurnesja verslun Kaupfélagsins Ingólfs í Sandgerði. Var þá stofnuð sérstök deild fyrir Sandgerði og Garð. Í stjórn deildarinnar eru Maron Björnsson, Kristinn Lárusson og Ólafur Gunnlaugsson.
Árið 1978 var hafin útgáfa Kaupfélagsblaðsins.
Hraðfrystihús Keflavíkur kaupir togarann Júlíus Geirmundsson árið 1979, sem fékk nafnið Bergvík KE22.
Þrátt fyrir mikla breytingatíma hjá KSK höfðu lög þess nær engum breytingum tekið allt til ársins 1979 að þau voru tekin til gagngerðrar endurskoðunar og þannig samþykkt á aðalfundi.
Deild var stofnuð í Garðinum 1979 með 90 félagsmönnum.
Árið 1980 gerist KSK þátttakandi, með Sambandi Íslenskra Samvinnufélaga, í að byggja og reka stórmarkað í Holtagörðum í Reykjavík. Lagði KSK fram 6% hlutafjár. Félagsmenn eru nú orðnir 2817 talsins.
Það sama ár kom fram að félagið hefði fengið úthlutað 10 þús. fermetra lóð við bæjarmörk Keflavíkur og Njarðvíkur. Unnið var að undirbúningi stórmarkaðarins og Teiknistofu Sambandsins falin framkvæmd. Samþykki Njarðvíkurbæjar fékkst fyrir lóðinni og var fyrsta skóflustungan að hinum nýja markaði tekin af Guðna Magnússyni, fyrsta formanni félagsins, þann 17. júlí 1981. Vinna við bygginguna hófst þann 5. september það ár og lauk verkinu sama dag og verslunin var opnuð.
1981- Járn & Skip stækkar
Kaupfélag Suðurnesja hefur nýlega tekið í notkun stækkun á verslun sinni, Járn & Skip. Húsnæðið er 300 ferm. að stærð og er þar til húsa: Teppi, dúkar og hreinlætisvörur, er áður voru í Skemmunni að Hafnargötu 62. Búðin hefur öll verið máluð og niðurröðun vara breytt. Útgerðarvörur eru nú afgreiddar að mestu frá lager. Vöruúrval er fjölbreytt og margbreytilegt. (tilvitnun úr Faxa)
1982 -Stórmarkaðurinn Samkaup opnaður í Njarðvík. Með opnun Samkaupa var stórt stökk tekið, en það er sennilega stærsta skrefið sem Kaupfélagi Suðurnesja hefur tekist að stíga til bættrar þjónustu og lækkaðs vöruverðs. Um leið og Samkaup var opnað komst kjötvinnslan í nýtt húsnæði en hún hafði búið of lengi við þröngan kost. „Nú framleiðir Kjötvinnslan Kjötsel yfir 100 tegundir af kjötvörum í háum gæðaflokki enda ein fullkomnasta kjötvinnsla landsins.“ (Tilvitnun úr Faxa)
Árið 1983 er 3% arður af öllum staðgreiðsluviðskiptum til 24. des.
Samþykkt hefur verið nýtt form á arðhlut til félagsmanna Kaupfélags Suðurnesja á þessu ári. Í stað þeirra afsláttarkorta sem hingað til hafa verið gefin út, koma nú arðmiðar (stimplaðar kassakvittanir).
Útborgun arðs fer þannig fram að félagsmenn fá 3% af öllum staðgreiðsluviðskiptum sem þeir eiga við Kaupfélag Suðurnesja endurgreitt í formi innleggsnótu sem hægt er að versla fyrir í öllum búðum félagsins eftir 12. des. og 2. jan.
Félagsmönnum fjölgaði mikið á árinu, eða úr 3.248 í 3.531, um 283.
Fyrsta konan í stjórn Kaupfélags Suðurnesja var Sæunn Kristjánsdóttir. Hún var fyrst kjörin árið 1983, en hafði áður starfað mikið fyrir kaupfélagið í Grindavík
Árið 1984 var merkisár hjá starfsmannafélaginu. Þá verður kona í fyrsta skipti formaður, var það Helga Bjarnadóttir. Með henni í stjórn voru Svanhildur Jónsdóttir, Guðný Húnbogadóttir, Anney Guðjónsdóttir og Skjöldur Þorláksson.
Árið 1985 fær Kaupfélagið fjölda áskorana frá íbúum Vatnsleysustrandarhrepps um að opna verslun í Vogum. Félagsdeild var stofnuð í Vatnsleysustrandahreppi með 79 félögum. Kaupfélagsverslun opnuð í framhaldinu en rekstri hennar hætt 1993. Á árinu 1985 varð mikil tilfærsla í matvöruverslun á Suðurnesjum. Alls hættu 6 kaupmenn rekstri 7 matvöruverslana á árinu, fjórir í Keflavík, einn í Sandgerði, einn í Njarðvík og einn í Vogum. Vöruverð á Suðurnesjum var nú orðið með því lægsta á landinu.
1985: Magnús Haraldsson er kjörinn formaður Kaupfélags Suðurnesja
Árið 1986 sýnir Verðkönnun verðlagsstjóra að verðlag í matvöru á Suðurnesjum er orðið 0,8% lægra en á Reykjavíkursvæðinu.
Árið 1988 tekur Guðjón Stefánsson við starfi kaupfélagsstjóra af Gunnari Sveinssyni sem hafði þá verið um 40 ár í starfi. Opnuð var verslun í Garðinum, slátrun hætt í Grindavík eftir 30 ár og byggingavöruverslun félagsins þar seld.
1988 er þó eitt versta ár í sögu kaupfélagsins. Aðalfundur Kaupfélags Suðurnesja var haldinn í Festi í Grindavík í mars það ár. Þar kom m.a. fram að árið 1988 var eitt erfiðasta ár í sögu Kaupfélags Suðurnesja og var tap á rekstri félagsins tæpar 14 milljónir króna.
Þann 2. febrúar 1988 var opnuð sölubúð í Garði í leiguhúsnæði.
1989 var lokið við byggingu nýs verslunarhúss í Grindavík. Verslun Kaupfélagsins er þá lögð niður tímabundið en kaupmenn á staðnum flytja sína verslun í húsnæði Kaupfélagsins. Verslanir félagsins að Hafnargötu 30 lagðar niður eftir bruna og húsnæðið selt. Sömuleiðis er verslunarhúsnæðið að Hafnargötu 62 selt. Jólaskemmtanir félagsins eru lagðar af það ár eftir 37 ár.
Árið 1990 eru félagsmenn kaupfélagsins orðnir 3454.
Það ár var rekstri Hraðfrystihúss Keflavíkur hætt og lauk þar með útgerðar- og fiskverkunarsögu félagsins, a.m.k. í bili, hvað svo sem framtíðin kann að bera í skauti sér.
Stórmarkaður félagsins, þ.e. Samkaup í Njarðvík, sem opnaður var árið 1982, hefur verið flaggskip þess á undanförnum árum.
Hafin er undirbúningsvinna að uppsetningu strikamerkjakerfis í Samkaup. Stefnt er að því að taka kerfið í notkun í marsmánuði 1992.
1993 er árið sem verslun hættir í Vogum á Vatnsleysuströnd. Kaupfélagið kaupir það ár stórverslun í Miðvangi 41 í Hafnarfirði og stofnuð er kaupfélagsdeild í Hafnarfirði. Kostirnir fyrir Kaupfélag Suðurnesja voru aukin velta og meiri sala kjötvinnslunar Kjötsels. Þá kom aukin hagkvæmi stærðarinnar í innkaupum.
1994 opnar lágverðsmarkaðurinn Kaskó við Vatnsholt í Keflavík, þar sem áður hafði verið Stórmarkaður Keflavíkur.
Árið 1995 er mikið hátíðarár. Kaupfélag Suðurnesja hefur starfað í hálfa öld. Verslunarhúsnæði að Iðavöllum 14B keypt. Og Búr ehf, innkaupafélag Kaupfélaga, Olíufélagsins og Nóatúns, stofnað.
Árið 1996 verður stórbruni þegar verslunin Járn og Skip brann til grunna. Húsnæðið var endurbyggt og verslunin í framhaldinu seld til Byko.
Þann 5. desember sama ár opnaði Samkaupsverslun á Ísafirði. Verslunin vakti athygli fyrir að bjóða sama verðlag og á Stór-Reykjavíkursvæðinu.
Samþykkt á aðalfundi árið 1998 að stofna hlutafélagið Samkaup hf. Samkaup tók þá yfir allan verslunarreksturinn en Kaupfélag Suðurnesja var áfram eigandi fasteigna.
Árið 1999 eignast Kaupfélagið allt húsnæði Samkaupa í Njarðvík með því að kaupa hluti meðeigenda. Gerður samstarfssamningur við Kaupfélag Héraðsbúa um verslunarrekstur á Austurlandi. Samningurinn felur í sér að verslanir KHB verða með útliti Samkaupsverslana og innkaup verða sameiginleg og einnig markaðsmál. Samkaup h.f. kaupir matvöruverslanir við Stigahlíð og við Vesturberg í Reykjavík og matvöruverslun í Bolungarvík.
Árið 2000 eru félagsmenn orðnir 3414. Kaupfélag Suðurnesja fær „Súluna“, menningarverðlaun Reykjanesbæjar þetta árið.
Árið 2001 sameinuðust Samkaup h.f. og Matbær ehf., sem var félag um verslunarrekstur Kaupfélags Eyfirðinga (síðar Kaldbakur h.f.). Kaupfélag Suðurnesja og félagsmenn þess var í fyrstu helmingseigandi á móti norðanmönnum 2001.
Kaupfélagið byggir það sama ár nýtt og glæsilegt hús í Sandgerði fyrir Samkaupsverslunina. Þá kaupir Kaupfélag Suðurnesja húsnæði Samkaupsverslunarinnar í Miðvangi í Hafnarfirði.
2002. Ein ný verslun var opnuð á árinu, Nettó við Salaveg í Kópavogi. Þá fluttu verslanir félagsins á Ísafirði og í Mývatnssveit í nýtt og glæsilegt húsnæði. Á árinu var Miðvangur einnig sameinaður kaupfélaginu.
Árið 2003 kaupir Kaupfélagið verslunarhúsnæði á Flúðum og leigir undir Samkaupsverslun. Norðanmenn taka þá ákvörðun að draga sig algerlega úr verslunarrekstri og kaupir þá Kaupfélga Suðurnesja helmingshlut Kaldbaks í KEA. Við þessa sameiningu rúmlega tvöfaldaðist velta Samkaupa h.f.
Þann 1. janúar 2004 hætti Kaupfélagið starfsemi Innlánsdeildar og var hún færð til Sparisjóðsins í Keflavík. Það sama ár kaupir Samkaup h.f. verslunina Hornið við Tryggvagötu 40 á Selfossi og tekur við rekstri hennar 26. febrúar. Verslunin fær nafnið Samkaup Úrval. Samkaup h.f. selur kjötvinnsluna Kjötsel til Borgarness en þá hafði vinnslan verið rekin á fimmta áratug. Sömuleiðis selur Samkaup h.f. kostverslunina Valgarð á Akureyri. Kaupfélagið kaupir nýtt verslunarhúsnæði á Ísafirði sem hýsir Samkaupsverslunina þar. Kaupfélagið kaupir einnig verslunarhúsnæði á Selfossi fyrir Samkaupsverslunina á staðnum. Kaupfélagið kaupir 35% í lyfjaversluninni Lyfju með Vátryggingafélagi Íslands, Fjárfestingafélagi Sparisjóðanna o.fl.
Árið 2005 kaupir Samkaup h.f. rekstur dagvöruverslana Húnakaupa h.f. á Blönduósi og Skagaströnd. KB ehf, verslunarfélag Kaupfélags Borgfirðinga og Samkaup h.f. sameinast. Þetta ár verða verslanir KB í Borgarnesi, Akranesi,Grundarfirði og Bifröst , Samkaupsverslanir. Hyrnan í Borgarnesi kemur jafnframt inn í Samkaup h.f.
Félagsmenn eru árið 2005 orðnir 3260 talsins.
Dótturfélag kaupfélagsins Samkaup hf hefur vaxið og dafnað, verslanir eru tæplega 50 talsins víðs vegar um landið.
Urtusteinn ehf er fasteignafélag í meirihlutaeigu kaupfélagsins.
2011 tekur Skúli Skúlason við formennsku af Magnúsi Haraldssyni. Gert er erindisbréf fyrir formann KSK og aukin verkefni færð á formann félagsins. Formaður er nú aðal málsvari félagsins.
Kaupfélag Suðurnesja er samvinnufélag á neytendasviði. Með félagsaðild erum við ekki bara viðskiptavinir heldur líka eigendur. Framtíðarsýn okkar er að 2018 verð félagsmenn og þar með eigendur að KSK 10.000. Félagið verði þekkt og viðurkennt fyrir samfélagslega ábyrgð sína, sé traust fyrirmynd í athöfnum sínum og traustur eigandi dótturfélaga sinna.
Við trúum því að saman byggjum við betra samfélag, aukum samfélagslegt traust og lífið verði á allan hátt auðveldara ef við vinnum saman.
KSK 75 ára. Aðalfundur haldinn í skugga Covid. Viðburðum tengdum afmælinu frestað um sinn.
Ný stefnumörkun fyrir árin 2020 – 2025 samþykkt.
Markmið að það verði eftirsóknarverður ávinningur að vera í KSK, að félagið sé mikilvæg stoð í samfélaginu m.a. á sviði nýsköpunar og sjálfbærni. Félagið verði sýnilegt og í virkum samskiptum við félagsmenn og ábyrgðar gætt í meðförum þeirra fjármuna sem félagið hefur yfir að ráða.
Í dag samanstendur samstæða félagsins af Samkaup hf., sem rekur 65 verslanir um land allt undir merkjum Nettó, Kjörbúð, Krambúð og Iceland og fasteignafélaginu KSK eignir ehf., sem rekur 30 fasteignir. Starfsmenn eru alls 1.300.