Ein og hálf milljón króna til björgunarsveita á Suðurnesjum
Kaupfélag Suðurnesja afhenti björgunarsveitunum á Suðurnesjum styrk upp á eina og hálfa milljón króna nú á aðventunni.
Við afhendingu styrkjanna sagði Skúli Skúlason, formaður KSK, meðal annars: „Það er líklega vonlaust að reyna að setja tölu á hversu mörgum björgunarsveitirnar okkar hér á Suðurnesjum hafa hjálpað eða hversu mörgum mannslífum þær hafa bjargað. Samfélagið reiðir sig á starfið. Við gerum okkur samt tæplega grein fyrir þeim aðstæðum sem mætir þessum ótrúlega hópi sjálfboðaliða sem standa oft frammi fyrir erfiðum aðstæðum. Í björgunarsveitum endurspeglast hughrekki, kraftur og samkennd sem einkennt hefur fámenna þjóð í hrjóstugu landi og starf í björgunarsveit er lífsstíll.“